Á morgun, 12. september, hefst á Hótel Stykkishólmi tveggja daga vinnufundur 26 sérfræðinga um lífríki Breiðafjarðar. Viðfangsefni fundarins er að fjalla um lykilþætti í lífríkinu og útbúa rannsókna- og vöktunaráætlun fyrir svæðið.

Breiðafjarðarnefnd hafði frumkvæði að þessari vinnu með því að óska eftir því við náttúrustofurnar á Vesturlandi og Vestfjörðum og Náttúrufræðistofnun Íslands að þær gerðu slíka áætlun. Stofnanirnar lögðu til að haldinn yrði sérfræðingafundur og þangað boðið öllum helstu sérfræðingum landsins um lífríki svæðisins ásamt öðrum sem taldir væru geta lagt málinu lið. Fulltrúar ofangreindra stofnana, Háskólaseturs Snæfellsness og Sjávarrannsóknasetursins Varar mynduðu undirbúningshóp síðastliðið vor, sem unnið hefur að undirbúningi fundarins. Þar munu mæta fulltrúar flestra náttúrurannsóknastofnana landsins.

Nú er allt klárt fyrir morgundaginn og er vonast eftir árangursríkum fundi næstu tvo dagana. Þess er vænst að gerð áætlunarinnar verði til þess að rannsóknir á lífríki svæðisins verði auknar, svo öðlast megi betri skilning á stöðu mála og þeim breytingum sem virðast vera hafnar.