Breiðafjarðarnefnd hélt í gær í vettvangsferð um Breiðafjörð, Hvallátur og Svefneyjar.  Lagt var af stað frá Stykkishólmi og Stað og haldið í Flatey.  Þaðan var siglt á tveimur bátum inn með þorpinu til Svefneyja, þar sem Gissur Tryggvason, Ragnheiður Axelsdóttir og Vera Antonsdóttir tóku á móti hópnum og sáu um kynningu á eyjunni, nytjum og örnefnum. Nefndarmenn skoðuðu húsakosti og þáðu veitingar.  Ranakofinn vakti sérstaklega áhuga nefndarmanna og gesta, en hann nýtur friðunar skv. lögum um húsafriðun nr. 104/2001.

Frá Svefneyjum var haldið í Hvallátur og gengið þar í land.  Þar tóku þau Erla Friðriksdóttir og Guðmundur Björnsson á móti hópnum og sýndu m.a. seglskipið Egil, sem Aðasteinn Aðalsteinsson hefur verið að gera upp. Ólafur Bergsveinsson í  Hvallátrum smíðaði Egil, sem var teinæringur og stærsta skip sem hann smíðaði og var stærsta opna skipið í Breiðafirði um sína daga. Ólafur var mikill skipasmiður og smíðaði milli 60 og 70 skip. Þá var æðarungaeldið skoðað ásamt aðstöðu til hreinsunar æðardúns.
Frá Hvallátrum var haldið aftur í Flatey en á leiðinni var rennt upp að eyjunum Höfninni (Hafnarey), Hrólfskletti og Flateyjar-Klofningi.  Í Flatey var gengið um eyjuna með leiðsögumanni Sæferða, Sveinbirni Pálssyni og kvöldverður snæddur í Hótel Flatey.

Myndir úr ferðinni má skoða með því að smella hér.