Umhverfis- og auðlindarráðuneytið úthlutaði fjármagni til landvörslu við Breiðafjörð á árinu 2019 og var það í fyrsta sinn sem landvarsla er á verndarsvæðinu í heild sinni en landverðir starfa þó í Vatnsfirði norðan fjarðar á sumrin og sinna með því lágmarkseftirliti í Flatey.
Umhverfisstofnun og Breiðafjarðarnefnd unnu saman að undirbúningi landvörslu við Breiðafjörð samkvæmt áherslum nefndarinnar. Það fjármagn sem úthlutað var til verkefnisins nægði til tíu vikna landvörslu og var landvörður við störf á tímabilinu september – desember árið 2019. Honum var falið að kanna verndarsvæði Breiðafjarðar með tilliti til álags af gestakomum og í því fólst m.a. að ástandsmeta nokkra áningar- og áfangastaði innan verndarsvæðisins og í nágrenni þess.
Landverði var einnig falið að skoða fjörur innan svæðisins og afla sér upplýsinga eftir atvikum. Meðal verkefna hans var að kanna hvar ferðamenn sækja að strandlengjunni, hvort sem um skipulagða eða sjálfsprottna útsýnisstaði er að ræða, skoða hvar gönguleiðir liggja um strandlengjuna, hvort einhver landnýting sé í fjörum og hvar hlunnindi eru nýtt.
Svæðin sem voru ástandsmetin eru eftirfarandi:
- Flatey – í tvennu lagi, innan og utan friðlands
- Súgandisey við Stykkishólm
- Kirkjufell
- Kirkjufellsfoss
- Fuglaskoðun í fjöru við Búðardal
- Áningarsvæði við Klofning
Niðurstöður vinnunnar er að finna í skýrslu sem birt hefur verið á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Ein af meginniðurstöðum hennar er að mikilvægt er að koma á landvörslu á svæðinu til frambúðar, sér í lagi yfir sumartímann.
Skýrsluna má nálgast með því að smella hér.