Breiðafjarðarnefnd, í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, stendur nú fyrir fræðslufundaröð um framtíð Breiðafjarðar í sveitarfélögum við fjörðinn. Fundir hafa þegar verið haldnir í Snæfellsbæ, Stykkishólmi og Grundarfirði og á næstunni verða auglýstir fundir í Dalabyggð, á Reykhólum og í Vesturbyggð.
Fundirnir eru haldnir í framhaldi af málþingi sem nefndin stóð fyrir í Tjarnarlundi í Dalabyggð í október 2019. Á síðustu misserum hefur nefndin sannfærst um að endurskoða þurfi lög um vernd Breiðafjarðar með það að markmiði að skýra þau og styrkja. Samhliða þeirri vinnu sem og vinnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við undirbúning stofnunar Þjóðgarðastofnunar, hefur nefndin rætt ýmsa möguleika og tækifæri fyrir framtíð Breiðafjarðar. Málþingið í október og fræðslufundirnir nú í byrjun árs eru liður í því að kalla eftir viðbrögðum íbúa, atvinnulífs, sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila við vangaveltum Breiðafjarðarnefndar.
Það er einlægur vilji nefndarinnar að vinna að framtíð Breiðafjarðar í sem víðtækustu samráði við þá sem málið varðar, allt frá upphafi. Nefndin hefur ekki myndað sér skoðun á hvort og þá hvaða skref sé heppilegast að stíga varðandi framtíð fjarðarins enda leggur hún áherslu á að heyra í sem allra flestum áður en nokkuð verður aðhafst.