Forgangsröðun verkefna eins og Breiðafjarðarnefnd hefur samþykkt fyrir sitt leyti og gert að tillögu sinni.
Verkefnin falla undir nokkrar megin fyrirsagnir sem hér segir:
(1) Gerð skipulagsáætlunar fyrir Breiðafjarðarsvæðið
(2) Lagabreytingar og samning reglugerðar
(3) Tryggja varðveislu náttúruminja, svo sem landslags, jarðmyndana og lífríkis
(4) Tryggja varðveislu menningarminja, svo sem mannvistarleifa, örnefna og minja er tengjast atvinnulífi
(5) Stuðla að því að land- og sjávarnytjar á Breiðafirði séu í anda sjálfbærrar þróunar
(6) Stuðla að rannsóknum á náttúru Breiðafjarðar og koma á skipulagðri vöktun
(7) Stuðla að því að útivist og ferðamennska á Breiðafirði sé í anda sjálfbærrar þróunar
(8) Stuðla að umhverfisfræðslu um Breiðafjörð og túlkun á umhverfinu
(9) Kortagrunnar
Verkefnin sem lögð eru til að verði unnin undir þessum fyrirsögnum eru ákaflega misyfirgripsmikil. Sum þeirra eru í raun verkefni til margra ára á meðan önnur krefjast fremur lítillar vinnu af hálfu Breiðafjarðarnefndar en hugsanlega annarra sem hafa með viðkomandi málaflokk að gera. Sum verkefnin eru þess háttar að þau falla eðlilega innan verksviðs Breiðafjarðarnefndar, önnur til verksviða sveitastjórna, ríkisstofnana eða snúa beint að ráðuneytum. Einkaaðilar þurfa að koma nærri öðrum verkefnum til þess að þau nái fram að ganga. Flest verkefnanna eru þess eðlis að þau kalla á margháttaða samvinnu eða samráð milli tveggja eða fleiri aðila.
Mörg forgangsverkefni voru valin af nefndarmönnum Breiðafjarðarnefndar og hefur þeim verið raðað í þrjá forgangsflokka (1,2 og 3 þar sem 1 er mestur forgangur). Lagt er til að unnið verði að minnsta kosti að þeim viðfangsefnum sem féllu í fyrsta flokk á árinu 2003. Þeim er lýst nánar hér að neðan en einstökum verkefnum er lýst nánar í töflu í Viðauka. Nánari lýsing á því sem nefndin vill fá út úr einstökum verkefnum er að finna í skýringum.
Gerð skipulagsáætlunar fyrir Breiðafjarðarsvæðið
Breiðafjarðarnefnd er sammála um nauðsyn þess að ráðist verði í að skipulegga Breiðafjarðarsvæðið í heild sinni. Eins og staðan er nú er mestur hluti þess óskipulagður og er skipulagsferillinn á forræði átta sveitarfélaga, en landið allt á að vera orðið skipulagt árið 2008. Nefndin leggur til að sveitarfélögin, skipulagsyfirvöld ríkisins, umhverfisráðuneytið og Alþingi beita sér sameiginlega fyrir gerð svæðisskipulags. Í því skyni og vegna sérstakra laga um Breiðafjörð er lagt til að leitað verði eftir sérstakri fjárveitingu af fjárlögum til að kosta gerð svæðisskipulagsins, líkt og kveðið er á um í Skipulags- og Byggingarlögum um gerð svæðisskipulags fyrir Miðhálendið.
Breiðafjarðarnefnd telur að mörg af þeim forgangsverkefnum sem lagt er til að unnin verði strax frá upphafi séu mikilvæg og nauðsynleg vegna gerðar svæðisskipulags. Það á ekki síst við um lagabreytingu sem lýtur að því að skilgreina svæðismörk með ákveðnari hætti en nú er, gagnasöfnun og rannsóknir til að tryggja varðveislu náttúruminja með samræmdum vinnubrögðum sem felast í að skilgreina vistgerðir svæðisins og varðveislu og rannsóknir á menningarminjum, svo sem mannvistarleifum, örnefnum og minjum er tengjast atvinnulífi. Forgangsröðun verkefna tekur verulegt mið af því að Breiðafjarðarnefnd telur að ráðast eigi sem fyrst í gerð svæðisskipulags fyrir verndarsvæði Breiðafjarðar.
Lagabreytingar og samning reglugerðar
Lög um vernd Breiðafjarðar eru að vissu leyti ónákvæm hvað varðar mörk verndarsvæðisins. Kveðið er á um að mörk þess skuli vera um fjörur en hvar mörkin liggja nákvæmlega er óglöggt. Ennfremur er ljóst að lög um vernd Breiðafjarðar ná aðeins takmarkað út frá ströndu þannig að stór hafsvæði milli eyja og milli eyja og lands verða útundan. Lögin ná þess vegna ekki fyllilega tilgangi sínum enda er það samspil eyja og sjávar sem sameiginlega mynda hina óvenjulegu mynd á Breiðafirði sem leitast er við að vernda með lagasetningunni.
Bent hefur verið á að vernd menningarminja er snerta sjóinn eru ekki tryggð með núverandi svæðismörkum enda eru margar sjóminjar lengra uppi í landi. Viss rök hníga að því að 250-300 m landræma með ströndinni ætti að heyra til verndarsvæðis Breiðafjarðar. Hvar er heppilegast að þau liggi er óljóst á þessu stigi, en óvissu vegna óglöggra marka verður að eyða. Þá er nauðsynlegt að styrkja betur hvernig skuli standa að varðveislu og rannsóknum á menningarminjum sem eru á forræði menntamálaráðherra en lögin um vernd Breiðafjarðar eru að öðru leyti á vegum umhverfisráðherra.
Sjávarsvæðið utan netlaga á Breiðafirði hefur verið skilgreint utan laga um vernd Breiðafjarðar en engu að síður innan þeirrar línu sem dregin er um verndarsvæðið umhverfis fjörðinn. Óvissan lýtur að því hvernig sjávarútvegsráðuneytið annars vegar og umhverfisráðuneytið hins vegar komi að málum er snerta vernd Breiðafjarðar og hvernig þau skulu vinna saman að sjálfbærri þróun og öðrum markmiðum laga um vernd Breiðafjarðar.
Reglugerð hefur ekki verið sett á grundvelli laga um vernd Breiðafjarðar og er mikilvægt að sú vinna fari í gang hið fyrsta.
Tryggja varðveislu náttúruminja, svo sem landslags, jarðmyndana og lífríkis
Til grundvallar skipulagsvinnu fyrir Breiðafjörð er mikilvægt að taka saman upplýsingar um lífríkið og jarðfræðiminjar með skipulögðum hætti. Lagt er til að unnið sé samkvæmt svokallaðri vistgerðaleið. Sú aðferðafræði byggir á því að flokka hinar mismunandi vistgerðir svæðisins. Flokkun vistgerða byggist á (1) formgerð landslags, (2) ólífrænum umhverfisþáttum, (3) tegundum plöntusamfélaga, (4) ríkjandi plöntutegundum, (5) gróðurframvindu og (6) samsetningu dýrasamfélaga.
Að gagnaöflun lokinni er gert ráð fyrir að eftirtaldar upplýsingar liggi fyrir um hverja vistgerð: (1) sjaldgæfar tegundir, (2) fjölbreytni tegunda og hve viðkvæm tegundasamfélög eru gagnvart raski, (3) mikilvægi vistgerða til að viðhalda stofnum og tegundum, (4) vísindalegt, félagslegt, efnahagslegt eða menningarlegt gildi vistgerðar og einstakra tegunda, (5) mikilvægi vistgerðar til að viðhalda náttúrulegum þróunarferlum og (6) verndargildi í alþjóðlegu samhengi.
Auk þess að meta mismunandi formgerðir landslags þarf að flokka jarðfræðiheildir og taka saman yfirlit um staðsetningu, útbreiðslu og algengni einstakra jarðfræðimyndana.
Með ofangreindri aðferðafræði fæst (1) yfirlit yfir einkenni, stærð og útbreiðslu mismunandi vistgerða og jarðfræðiheilda, (2) þekking til þess að meta verndargildi mismunandi náttúrufyrirbæra, svæða og staða og (3) hlutlægt mat sem hægt er að nota við ákvarðanir um alla nýtingu og náttúruvernd.
Nánari upplýsingar um hvernig staðið skuli að því að nálgast tilheyrandi gögn er að finna í kaflanum um náttúrurannsóknir.
Tryggja varðveislu menningarminja er tengjast atvinnulífi
Við skipulagsgerð og framkvæmdir er brýnt að hliðsjón verði höfð af menningarminjum. Saga eyjasamfélagsins er mikilvægur þáttur í sögu byggðar á Íslandi, en eyjarnar byggðust strax á landnámsöld. Þar er m.a. menningarlandslag sem tryggja þarf verndun á í samræmi við lög um náttúruvernd. Þar kemur m.a. fram að markmið laganna sé að vernda það sem er sérstætt og sögulegt en einnig að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af menningarminjum.
Það sem brýnast er að gera er að skrá og kortleggja menningarminjar. Skrá menningarminja fyrir svæðið í heild er mjög takmörkuð og brýnt að undanfari allrar skipulagsvinnu á verndarsvæðinu verði fullkomin fornleifaskráning. Hún er í raun forsenda þess að frekari menningartengdar rannsóknir geti farið fram. Koma þarf á samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og aðra sérfróða aðila um skráningu fornleifa og annarra menningarminja á svæðinu.
Byggðamynstur á verndarsvæði Breiðafjarðar hefur breyst mikið og sérstaklega á þessari öld. Nauðsynleg er að farið verði skipulega í skráningu byggðar á svæðinu, að minnsta kosti frá manntalinu 1703.
Safna þarf saman þjóðháttalýsingum, örnefnum og öðrum munnlegum fróðleik sem gengið hefur manna á milli í eyjunum.
Efla þarf vernd menningarminja, t.d. með ákveðnum merkingum, þannig að koma megi í veg fyrir skemmdir af gáleysi eða vanþekkingu. Hugmyndir hafa komið fram um að endurbyggja einstakar minjar og eru þær hugmyndir góðra gjalda verðar. Það þarf hins vegar að tryggja að ekkert sé gert nema með fullu samþykki landeigenda, Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar ríkisins. Þá er áhugavert að koma á samstarfi við verndarsvæði í öðrum eyjasamfélögum eins og t.d. í Færeyjum eða eyjasamfélögum við Skotland með sameiginlegar rannsóknir í huga.
Stuðla að því að land- og sjávarnytjar á Breiðafirði séu í anda sjálfbærrar þróunar
Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að taka saman greinargott yfirlit um helstu nytjar sem eru eða hafa verið stundaðar á Breiðafirði, bæði til lands og sjávar. Í tengslum við þá greinargerð er gert ráð fyrir að taka saman helstu tölur eftir því sem hægt er svo sem um verðmæti nytjanna, hve mikils magns er aflað, fjölda starfa, o.s.frv. Að lokum mun verða lagt mat á stöðu einstakra nytjaþátta m.t.t. sjálfbærrar þróunar og til hvaða rannsókna, frekari gagnöflunar eða aðgerða þurfi að grípa til að ná markmiðum laga um vernd Breiðafjarðar.
Stuðla að rannsóknum á náttúru Breiðafjarðar og koma á skipulagðri vöktun
Margvísleg gögn eru til um náttúrufar Breiðafjarðar en þau eru bæði misjöfn að gæðum og magni. Mikið af þessum gögnum hafa hvorki verið birt né tekin saman í óbirtar skýrslur. Yfirlit um birtar upplýsingar um sjávarrannsóknir er að finna í skýrslu Halldóru Skarphéðinsdóttur og Karls Gunnarssonar „Lífríki sjávar í Breiðafirði“ (1997). Samsvarandi yfirlit um náttúrufar á landi er ekki til en benda má á Árbók Ferðafélags Íslands 1989 sem fjallar um Breiðafjarðareyjar og þar er margvíslegra heimilda getið.
Lagt er til að fyrst sé tekið saman yfirlit um fyrirliggjandi gögn um einstaka náttúrufarsþætti. Slík samantekt felst í því að skilgreina hvar gögn um mismunandi náttúrufarsþætti er að finna, meta gæði þeirra, hve gott yfirlit þau gefa um viðkomandi þætti, meta hvað þurfi að gera til að þau veiti viðunandi yfirlit og leggja fram tillögur hvernig skuli staðið að frekari gagnaöflun.
Við skipulagningu á frekari rannsóknavinnu skal leggja ríkasta áherslu á að afla þeirra náttúrufarsgagna sem eru nauðsynleg vegna vinnu við svæðisskipulag fyrir Breiðafjörð. Við að fara svokallaða vistgerðaleið er mikilvægast í upphafi að kortleggja gróðursamfélög og plöntutegundir svæðisins. Aðeins lítill hluti svæðisins hefur verið kortlagður hingað til og samsetning gróðursamfélaga er því illa skráð. Enn minna hefur verið skráð um fjörugerðir og mismunandi lífríki þeirra. Gróðurkort verða síðan notuð sem grunnur að vistgerðakortum og mun frekari gagnaöflun verða byggð á niðurstöðu þeirra. Ýmsir þættir fuglalífs eru vel þekktir, aðrir lakar, en margvísleg gögn sem eru til hafa ekki verið tekin saman eða kortlögð. Jarðfræðiminjar hafa verið skráðar á stórum hluta Breiðafjarðar en úrvinnsla er skammt á veg komin. Einstakir þættir eru þó vel kortlagðir, eins og jarðhitasvæði.
Eitt þeirra verkefna sem mikilvægt er að vinna á síðari stigum er að gera samræmda áætlun um vöktun á skilgreindum náttúrufarsþáttum Breiðafjarðar. Slík áætlun þarf að vera til staðar svo unnt sé að fylgjast með breytingum sem eiga sér stað á náttúrufari fjarðarins, hvort heldur er af náttúrulegum ástæðum eða mannavöldum. Niðurstöður slíkrar áætlunar eru mikilvægar við alla frekari ákvarðanatöku um nýtingu og vernd Breiðafjarðar og til hvaða aðgerða þarf að grípa til þess að laga það sem aflaga hefur farið, ef það er unnt.
Stuðla að útivist og ferðamennsku á Breiðafirði í anda sjálfbærrar þróunar
Það er mat Breiðafjarðarnefndar að nauðsynlegt sé að skipuleggja ferðaþjónustu og almenna útivist á verndarsvæðinu og jöðrum þess í anda sjálfbærrar þróunar enda er mikill vöxtur í ferðaþjónustu hér á landi eins og upplýsingar frá Ferðamálaráði Íslands bera vitni um. Í samræmi við lög um vernd Breiðafjarðar er brýnt að Breiðafjarðarnefnd í samvinnu við sveitarstjórnir og ferðaþjónustuaðila beiti sér fyrir gerð áætlunar um ferðaþjónustu og almenna umferð um svæðið, þannig að náttúru- og menningarminjum verð ekki spillt, en í því sambandi má nefna sérstaklega dýrategundir sem eru á válista svo og hlunnindanýtingu bænda.
Kostnaður vegna skipulags- og áætlanagerðar um ferðaþjónustu felst í þátttöku nefndarmanna á fundum um málefnið, útgáfu umgengnisreglna, skipulagsáætlunarinnar og leiðbeiningarbæklings sem dreift yrði til ferðaþjónustuaðila.
Stuðla að umhverfisfræðslu um Breiðafjörð og túlkun á umhverfinu
Það er mat Breiðafjarðarnefndar að nauðsynlegt sé að efla og skipuleggja umhverfisfræðslu um Breiðafjörð. Nefndin telur brýnt að koma á samstarfi við grunnskóla og framhaldsskóla á svæðinu svo sem í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Þar kemur m.a. fram að samspil manns og náttúru skuli skoðað með það að leiðarljósi að efla þekkingu og skilning nemenda á grundvallarmarkmiðum sjálfbærrar þróunar ásamt vilja til að starfa í anda þeirra. Þá telur nefndin brýnt að í samstarfi við ferðaþjónustuaðila verði útbúið fræðsluefni fyrir gesti svæðisins og er þá átt við upplýsinga- og fræðslubæklinga svo og fræðsluskilti.
Kostnaður vegna skipulags- og áætlanagerðar um umhverfisfræðslu felst í samstarfi Breiðafjarðarnefndar við fulltrúa skóla og ferðaþjónustu, útgáfu kennslugagna, gerð skipulagsáætlunar, upplýsinga- og fræðslubæklinga, gerð og uppsetningu fræðsluskilta, upplýsinga- og fræðslubæklinga, o.s.frv.
Kortagrunnar
Grundvöllur allrar skipulagsvinnu er að viðunandi kortgrunnar séu til á stafrænu formi og í þeim mælikvarða sem hentar hverju sinni mismunandi gagnasöfnun. Kortagrunnar eru einnig mikilvægir við alla rannsóknavinnu, hvort sem um er að ræða á náttúru- eða menningarminjum. Þjónustufyrirtæki, opinberar stofnanir og sveitarfélög hafa ennfremur margvíslegt gagn af hentugum kortagrunnum.
Kortagrunnar eru ekki til yfir Breiðafjarðarsvæðið í þeim mælikvörðum sem þarf nema að litlu leyti. Kostnaður er mikill við gerð kortagrunna og því réttast að leita eftir sem víðtækustu samstarfi um gerð þeirra meðal þeirra mörgu aðila sem þurfa á nákvæmum kortum að halda. Slíkar aðilir eru til dæmis Skipulag ríkisins, Vegagerðin, Hafrannsóknastofnun, Þörungaverksmiðjan á Reykhólum, ferðaþjónustuaðilar, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrustofur á Vestfjörðum og Vesturlandi, hin sjö sveitarfélög svæðisins, Þjóðminjasafn Íslands, Minjaverðir Vestfjarða og Vesturlands, Örnefnastofnun, Bráðamengunarnefnd, Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins, Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, Orkustofnun, o.fl.
Hér er ekki gerð tillaga um fjármögnun á stafrænum kortagrunnum, til þess er málið of stutt á veg komið. Lagt er til að Breiðafjarðarnefnd með stuðningi valinna aðila, þ. á m. Umhverfisráðuneytis, leiti eftir viðunandi lausn á gerð kortagrunna m.a. vegna skipulagsmála og rannsókna.
