Þann 2. maí 2018 sendi Breiðafjarðarnefnd umhverfisráðherra erindi þar sem hún hvatti til þess að ráðuneytið tæki lög um vernd Breiðafjarðar til endurskoðunar með hliðsjón af greinargerð sem með bréfinu fylgdi. Nefndin átti fund með ráðherra þann 16. ágúst 2018 þar sem hann tók undir að tímabært væri að endurskoða lög um vernd Breiðafjarðar. Í því sambandi óskaði ráðuneytið, í erindi til nefndarinnar þann 8. október 2018, eftir því að Breiðafjarðarnefnd sendi ráðuneytinu tillögur sínar að endruskoðun laganna við fyrsta tækifæri. Í kjölfarið yrði staðan metin, m.a. hvort ástæða þætti til að skipa vinnuhóp um endurskoðun laganna.

Breiðafjarðarnefnd hefur síðan unnið að drögum að endurbættum lögum um vernd Breiðafjarðar út frá þeirri greinargerð sem hún sendi ráðherra. Nefndinni þótti þó ástæða til þess að staldra við og kynna sér vilja sveitarstjórna, íbúa og annarra hagmunaaðila fyrst og hóf þess vegna þá samráðsvinnu um framtíð Breiðafjarðar sem nú stendur yfir.

Nefndin sjálf mun ekki vinna að lagabreytingum á lögum um vernd Breiðafjarðar en hún getur þó sent ráðherra tillögur sínar.

Hérna má finna bréf nefndarinnar til ráðherra ásamt greinargerð varðandi endurskoðun laga um vernd Breiðafjarðar.