Lengi hefur verið rætt um að Breiðafjörður eigi heima á Ramsarskrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði, bæði innan nefndarinnar og utan. Umræða um málið hófst á fundi Breiðafjarðarnefndar árið 2005 þegar rætt var hvort skoða ætti kosti þess og galla að skrá Breiðafjörðinn á lista Ramsar. Málið var í kjölfarið rætt af og til innan nefndarinnar og nefndin kynnti sér málið með aðstoð sérfræðinga frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þann 22. apríl 2014 var núverandi verndaráætlun fyrir Breiðafjörð send sveitarfélögum við fjörðinn til umsagnar. Stykkishólmsbær, Grundarfjörður og Snæfellsbær gáfu sameiginlega umsögn og gerðu sérstaklega athugasemd vegna „tilnefningar Breiðafjarðar á heimsminjaskrá UNESCO og Ramsarskrá“. Í umsögn sveitarfélaganna segir: „Mikilvægt er að tilnefningar sem þessar hindri ekki möguleika sveitarfélaga við Breiðafjörð til að byggja upp innviði sína, sérstaklega hvað varðar nútímaleg mannvirki“. Í áframhaldandi vinnu nefndarinnar var tekið tillit til þessarar afstöðu sveitarfélaganna og í samþykktri verndaráætlun segir:

„Stefna Breiðafjarðarnefndar er að kanna möguleika, kosti og galla þess að skrá verndarsvæði Breiðafjarðar sem Ramsarsvæði og/eða á Heimsminjaskrá UNESCO.

Mögulegt er að styrkja enn frekar vernd Breiðafjarðar, t.d. með því að tilnefna svæðið á alþjóðlega lista yfir vernduð svæði. Í því sambandi hafa heimsminjaskrá UNESCO og Ramsarskráin helst verið nefnd.

Mikilvægt er að tilnefningar sem þessar hindri ekki möguleika sveitarfélaga við Breiðafjörð til að byggja upp innviði sína, sérstaklega hvað varðar nútímaleg samgöngumannvirki.“.

Í verndaráætlun segir einnig:

„Ýmsar leiðir eru færar til að styrkja vernd svæðisins en sennilega eru þrjár leiðir líklegastar til árangurs:

  • Stækkun verndarsvæðisins og lögskýring.
  • Ramsarsamningurinn.
  • Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

…..

Til viðbótar við framangreindar þrjár leiðir væri mögulegt að stofna þjóðgarð á svæðinu sem næði yfir eyjar, strandlengju og hafsvæði. Aukin áhersla hefur verið á alþjóðavettvangi undanfarin ár að stofna sjávarþjóðgarða sem hafa sömu markmið og verndun landsvæða, þ.e. almenna náttúruvernd þ.m.t. vernd heilla vistkerfa og sjálfbæra nýtingu auðlinda.“

Á vordögum 2016 sendi nefndin sveitarfélögum við fjörðinn erindi þar sem óskað var eftir viðbrögðum þeirra varðandi hugmyndir nefndarinnar að leggja það til við umhverfis- og auðlindaráðherra að skrá svæðið á lista yfir Ramsarsvæði. Svar barst frá fjórum sveitarfélögum sem almennt tóku jákvætt í erindið svo fremi sem það hefði ekki áhrif á framkvæmdir eða nýtingu á svæðinu. Sveitarfélögin óskuðu eftir því að fá frekari upplýsingar um það hver áhrif skráningarinnar hefðu á svæðið.

Þegar ný nefnd tók til starfa árið 2017 setti nefndin sér ákveðna framtíðarsýn með það að markmiði að uppfylla stefnu verndaráætlunarinnar. Eitt þeirra verkefna sem nefndin einsetti sér að vinna að var að skoða kosti og galla skráningar svæðisins á lista yfir Ramsarsvæði. Í ljósi viðbragða sveitarfélaga við erindinu sem sent var árið 2016 ákvað nefndin að kynna þyrfti Ramsarskrána og hvað hún felur í sér enn frekar fyrir sveitarfélögum við fjörðinn og leita eftir viðbrögðum þeirra áður en nefndin aðhefðist eitthvað frekar. Þess vegna var ákveðið að halda opna fræðslu- og umræðufundi.

Árið 2019 átti sér stað umræða innan nefndarinnar um að leggja þyrfti áherslu á endurskoðun laga um vernd Breiðafjarðar, enda eitt af þeim verkefnum sem talið er upp í verndaráætlun. Á sama tíma vann umhverfis- og auðlindaráðuneytið að undirbúningi að stofnun Þjóðgarðastofnunar. Nefndinni þótti því eðlilegt að nýta tækifærið og skoða alla mögulega kosti sem til staðar eru fyrir framtíð fjarðarins, og koma fram í verndaráætlun Breiðafjarðar, og hvað í þeim fælist. Í byrjun síðasta árs fór nefndin á fræðslufund ýmissa sérfræðinga um fyrrgreind málefni með það að markmiði að geta kynnt þau og kosti þeirra og galla fyrir íbúum, sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.

Nefndin stóð fyrir málþingi um framtíð Breiðafjarðar í Tjarnarlundi í Dalabyggð þann 22. október 2019. Á þinginu fór fram almenn kynning á sérstöðu svæðisins og þeim kostum sem til staðar eru fyrir svæðið. Þeir helstu eru að: a) endurskoða núverandi lög, b) tilnefna svæðið á Ramsarskrá, c) tilnefna svæðið á heimsminjaskrá UNESCO eða d) gera svæðið að þjóðgarði.

Nefndin ákvað í kjölfarið að verja árinu 2020 í að leggja mikla áherslu á vinnu við samantekt á efni um möguleika fyrir framtíð Breiðafjarðar. Það ætlar að nefndin að gera í sem nánustu samráði við íbúa, sveitarfélög, atvinnulíf, landeigendur og aðra hagsmunaaðila alveg frá upphafi. Mikilvægur liður í þessu samráðsferli eru opnir fræðslufundir í sveitarfélögum við fjörðinn, sem hófust í janúar 2020. Þar hefur íbúum gefist kostur á að kynna sér hugmyndir Breiðafjarðarnefndar og koma á framfæri skoðunum sínum.

Afrakstur vinnu nefndarinnar verður tekinn saman í greinargerð sem send verður sveitarfélögunum til umsagnar. Að lokum verður niðurstöðu vinnunnar skilað til umhverfis- og auðlindaráðherra. Rétt er að árétta að nefndin tekur engar ákvarðanir um framhaldið en hún leggur fram sínar tillögur til ráðherra, í samræmi við hlutverk nefndarinnar skv. lögum nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar.

Markmið nefndarinnar er að tryggja góða framtíð Breiðafjarðar. Í því felst m.a. að við fjörðinn þrífist áfram öflugt samfélag sem nýtir auðlindir á sem sjálfbærastan máta. Breiðafjarðarnefnd leggur höfuðáherslu á að heimamenn hafi áfram ríka aðkomu að stjórnun svæðisins og eigi meirihluta í þeim nefndnum og ráðum sem mögulega koma að stýringu svæðisins.