Samningur UNESCO (Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna) um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins var samþykktur árið 1972. Aðildarríki að honum eru nú 193 talsins og heita þau því að standa vörð um menningu heimsins, vernda heimsminjar og sporna gegn eyðingu þeirra. Ísland staðfesti samninginn árið 1995 og er hann vistaður hjá menntamálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu.

 

Heimsminjanefnd er skipuð fulltrúum frá 12 ríkjum. Hún fundar árlega og hefur aðalákvörðunarvald hvað varðar tilnefningar, innskráningar á listann og ástand heimsminjastaða. Aðildarríki skulu skila inn yfirlitsskrá yfir þau svæði sem gætu átt heima á heimsminjaskrá. Ríki getur svo tilnefnt svæði sem það vill fá á listann en tilnefning tekur um það bil 3-5 ár. Þá tekur við um það bil 18 mánaða matsferli hjá heimsminjanefnd sem ákveður hvort svæðið kemst á heimsminjaskrá UNESCO eður ei. Þegar svæði hefur verið sett á heimsminjaskrá er ríki ábyrgt fyrir vernd og sjálfbærri nýtingu að forskrift heimsminjanefndar en markmiðið er að stýra og stjórna svæðum þannig að gildi þeirra á heimsvísu viðhaldist. Til þess að teljast hafa einstakt gildi á heimsvísu þarf staður að uppfylla að minnsta kosti eina kröfu samningsins, t.d. kröfu um heilleika og upprunaleika eða kröfu um vernd og stjórnun.

 

Hvað Breiðafjörð varðar nýtur svæðið þegar verndar og hefur skilgreinda stjórn og umsjón, verndaráætlun er til fyrir svæðið og það hefur þegar verið sett á yfirlitsskrá Íslands. Svæðið er upprunalegt og heillegt og uppfyllir því margar af kröfum samningsins. Það sem gæti staðið í vegi fyrir því að svæðið teljist gjaldgengt á heimsminjaskrá er að á skránni er þegar svæði sem er að mörgu leyti sambærilegt, að minnsta kosti hvað menningarhlutann varðar, Vega í Noregi. Það þyrfti því að mögulega að skilgreina menningarlega þáttinn öðruvísi en gert er í Vega auk þess sem mikla áherslu yrði að leggja á náttúruminjar á svæðinu.

Heimsminjaskrá UNESCO
UNESCO á Íslandi