Miðvikudaginn 23. október stóð Breiðafjarðarnefnd fyrir málþingi um framtíð Breiðafjarðar í Tjarnarlundi í Dalabyggð. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum nefndarmanna og sátu rúmlega 80 manns þingið, þar á meðal landeigendur og aðrir notendur náttúrugæða. Umhverfis- og auðlindaráðherra mætti á þingið ásamt fylgdarliði úr ráðuneytinu. Á þingið var boðið sérstaklega fulltrúum sveitarfélaga sem liggja að verndarsvæðinu en þingið var auk þess opið hverjum sem mæta vildi.

Á síðustu misserum hefur Breiðafjarðarnefnd rætt hver framtíð verndarsvæðisins á Breiðafirði skuli vera. Núgildandi lög um vernd Breiðafjarðar eru 24 ára gömul og þarfnast uppfærslu að mati nefndarinnar. Helstu spurningarnar eru hvort stíga eigi ný skref til verndar og stýringar á firðinum. Ræddir hafa verið möguleikar á stækkun svæðisins, breytingar í tengslum við mögulega nýja stofnun um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði og upp hafa komið hugmyndir um að tilnefna Breiðafjörð á Ramsarskrána um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði, sækja um að hann verði settur á heimsminjaskrá UNESCO og að gera Breiðafjörð að þjóðgarði.

Á þeirri vegferð að móta sér stefnu um málefnið þótti nefndinni viðeigandi að boða til fræðslu- og umræðuþings með það að markmiði að uppfræða nefndarmenn, sveitarfélög og almenning um þá möguleika sem eru fyrir hendi. Með hvaða hætti við viljum halda áfram að standa vörð um náttúrugæði Breiðafjarðar og nýtingu þeirra.

Á fundinum voru flutt mjög áhugaverð og upplýsandi erindi um sérstöðu svæðisins, Ramsarskrá yfir votlendissvæði, heimsminjaskrá UNESCO, kosti og galla friðlýsinga, þjóðgarða og reynsluna af þeim og verkefni á vegum UNESCO sem ber nafnið Man and the Biosphere.

Á meðal þess sem fram kom var að Breiðafjörður er gríðarlega mikilvægt náttúrusvæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, auk þess að geyma mikilvægar minjar um hlunnindanýtingu. Einnig lögðu framsögumenn áherslu á að kjarni náttúruverndar sé ekki boð og bönn, heldur sé hún stjórntæki til sjálfbærrar nýtingar, hvort sem um er að ræða ferðaþjónustu eða aðra nýtingu. Það að gera svæði að þjóðgarði væri í raun og veru málamiðlun í náttúruvernd, þar sem þjóðgarður felur í sér mun vægari friðun en margir aðrir flokkar friðunar. Við stofnun þjóðgarðs yrðu til ný störf á svæðinu og fræðslustarfsemi myndi stóraukast. Nýting svæðisins yrði áfram leyfð svo lengi sem hún væri sjálfbær, sem hlýtur hvort eð er að vera markmið allra þeirra sem nýta fjörðinn. Verndar- og nýtingaráætlun þjóðgarða og starfslið sem þeim fylgir hjálpa til við að miðla fræðslu og stýra nýtingu, hvort sem um ræðir fiskveiðar, ferðaþjónustu, útivist eða eitthvað allt annað.

Í kjölfar erindanna var boðið upp á fyrirspurnir úr sal sem úr spunnust gagnlegar umræður. Þar kom ítrekað upp umræða um mikilvægi þess að verndun svæðisins verði unnin í nánu samráði við heimamenn og að stjórnun svæðisins verði áfram í höndum þeirra. Það er einmitt sú nálgun sem gefist hefur hvað best við friðlýsingar á Íslandi og annars staðar. Þess vegna er stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem sveitarfélög hafa mjög ríka aðkomu, haft sem fyrirmynd þegar hugmyndir um nýja þjóðgarða eru ræddar.

Breiðafjarðarnefnd þakkar bæði framsögumönnum og öllum þeim sem mættu og tóku þátt í þinginu. Umræður fundarmanna í fundarlok mun nefndin nýta sér í áframhaldandi vinnu og leggja áherslu á að móta hugmyndir áfram í náinni samvinnu við sveitarfélög við fjörðinn, sem og landeigendur, íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Ljóst er að breytingar verða á svæðinu á næstu árum og áratugum, m.a. vegna umhverfisbreytinga og fjölgunar ferðamanna. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að heimamenn verði í lykilhlutverki við mótun þeirra breytinga og hafi til þess þau stjórntæki sem til þarf.

Á næstu vikum eru fyrirhuguð fræðslukvöld um málið fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér það nánar.