Ramsar samningurinn um votlendi er kenndur við borgina Ramsar í Íran. Samningurinn er frá árinu 1971 og varð til á þeim tíma sem menn fóru að gera sér grein fyrir mikilli mengun í heiminum og eyðingu búsvæða (sérstaklega fugla til að byrja með). Með samningnum var reynt að bregðast við þeim breytingum sem áttu sér stað í heiminum. Samningurinn fjallar fyrst og fremst um skynsamlega nýtingu, bæði hvað varðar vernd og sjálfbæra nýtingu votlendis og alla þjónustu sem votlendissvæði veita mönnum og náttúru. Í raun og veru þýðir samningurinn ekki annað en það að ganga almennilega um náttúruna, geyma höfuðstólinn og nýta vextina.

 

Nú eru 170 þjóðir aðilar að samningnum og svæðin tæplega 2400. Samningurinn var samþykktur á Íslandi árið 1978 og var Mývatn og Laxá fyrsta svæðið sem skráð var á listann. Svo bættust Þjórsárver, Grunnafjörður, Snæfell og Eyjabakkar, Andakíll og Guðlaugstungur við. Með samningnum skuldbindur Ísland sig til þess að fylgja því sem samningurinn fjallar um og er hann bæði innleiddur inn í lög um náttúruvernd og almennar skuldbindingar Íslands. Sem dæmi má nefna að 61. grein náttúruverndalaga, um vernd votlendis, er byggð á þessum samningi.

 

Samningurinn tekur til alls votlendis niður á 6 metra dýpi, sem sagt mýra, flóa, fenja, vatna og straumvatna, fersk vatns og salt vatns. Votlendi er lífsnauðsynlegt fyrir afkomu manna og dýra og eru einhver þau lífauðugustu svæði sem um ræðir. Votlendi þjónusta ekki aðeins lífríkið sjálft heldur eru þau vörn gegn flóðum, uppspretta ferskvatns og binding fyrir kolefni.

 

Þegar metið er hvort svæði er alþjóðlega mikilvægt og gjaldgengt á lista Ramsar er notast við þar til gerð viðmið samningsins. Þar má nefna votlendi sem er dæmigert eða sjaldgæft, lítt raskað eða búsvæði með mikið magn lífríkis, fjölbreytt lífríki eða búsvæði tegunda (dýra og plantna) sem eru í hættu. Auk þessa er stuðst við ákveðin töluleg viðmið, t.d. hvað varðar fjölda tegunda, farleiðir, hrygningasvæði, uppeldissvæði, fæðuuppsprettu og svo framvegis. Hvert svæði þarf aðeins að uppfylla eitt af þessum viðmiðum til þess að teljast gjaldgengt á lista Ramsar. Breiðafjörður uppfyllir nánast öll þau viðmið sem um ræðir og því leikur enginn vafi á að svæðið er mikilvægt á heimsvísu.

 

Ávinningur af skráningu Breiðafjarðar á lista Ramsar yrði sá að til yrðu nokkurs konar leikreglur sem gætu markvisst stuðlað að góðri umgengni um svæðið. Skráningin gæti auðveldað þeim sem stjórna svæðinu að nýta reynslu annarra sem stýrt hafa sambærilegum svæðum. Skráning gæti einnig falið í sér tækifæri þegar kemur að vottun og markaðssetningu vara sem framleiddar eru á svæðinu. Ferðamenn vilja auk þess heldur heimsækja svæði sem eru á einhvern hátt einstök og vel rekin. Tækifærið felst þó fyrst og fremst í því að varðveita svæðið til framtíðar.

Heimasíða Ramsarsamningsins
Upplýsingar um Ramsarsvæði á Íslandi