Þegar Breiðafjarðarnefnd samþykkti að hefja þá vegferð að kanna hvaða kostir væru til staðar fyrir  framtíð Breiðafjarðar lagði nefndin áherslu á eins víðtæka kynningu og samráð við íbúa, sveitarstjórnir, landeigendur, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila og unnt væri.

Nefndin hóf samráðið með ítarlegri kynningu og fræðslu á þeim kostum sem til staðar eru fyrir framtíð fjarðarins á málþingi í Tjarnarlundi í Dalabyggð í október 2019. Þangað var sérstaklega boðið kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna sjö við fjörðinn en málþingið var þó öllum opið.

Í kjölfar málþingsins stóð Breiðafjarðarnefnd fyrir fræðslufundum um framtíð Breiðafjarðar í sveitarfélögum við fjörðinn. Fundirnir voru liður í því að kalla eftir viðbrögðum íbúa, atvinnulífs, sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila við vangaveltum Breiðafjarðarnefndar.

Fræðslufundirnir voru auglýstir á heimasíðu og Facebook-síðu nefndarinnar, í bæjarblöðum og á heimasíðum sveitarfélaganna. Fundir voru haldnir við sunnanverðan fjörðinn fyrri hluta árs 2020 en vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldri þurfti ítrekað að fresta fundum í Dalabyggð, Reykhólahrepp og Vesturbyggð. Að lokum var ákveðið að halda einn sameiginlegan fjarfund fyrir íbúa þeirra sveitarfélaga í októberlok.

Á fundunum fjallaði Erla Friðriksdóttir, formaður nefndarinnar, um vinnu nefndarinnar og næstu skref. Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands og fulltrúi í Breiðafjarðarnefnd, fjallaði um sérstöðu Breiðafjarðar og framtíð hans. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, fjallaði um reynslu Snæfellinga af þjóðgarði. Í lok fundanna var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

Á haustmánuðum 2020 óskaði Breiðafjarðarnefnd eftir fundum með sveitarstjórnum sem að firðinum liggja. Sérstakur fundur var haldinn með fulltrúum hverrar sveitarstjórnar fyrir sig í gegnum fjarfundabúnað. Á fundinum kynnti Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar, nefndina og vinnu hennar síðastliðin misseri og Róbert Arnar Stefánsson gerði grein fyrir sérstöðu fjarðarins og möguleikum fyrir framtíð hans.

Á fundinum var kallað eftir óformlegum umræðum og athugasemdum frá sveitarstjórnafulltrúum sem nefndin gæti tekið mér sér í veganesti þegar hún legði lokahönd á niðurstöður samráðsvinnu sinnar.

Samantekt nefndarinnar varðandi framtíð Breiðafjarðar, ásamt drögum að tillögum hennar til ráðherra voru sendar sveitarstjórnum við fjörðinn til formlegrar umsagnar þann 23. nóvember 2020. Hún var auk þess birt á heimasíðu nefndarinnar og íbúum þannig gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í gegnum tölvupóst. Umsagnarfrestur var gefinn til 18. desember en þeim umsögnum sem bárust nefndinni fram að lokaútgáfu samantektarinnar var þó haldið til haga.