Á Íslandi eru þrír þjóðgarðar, Þingvallaþjóðgarður (frá 1930), Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull (frá 2001) og Vatnajökulsþjóðgarður (frá 2008). Umgjörðin utan um þessa þjóðgarða er mjög mismunandi. Þingvallaþjóðgarður var stofnaður með sérstökum lögum og í stjórn hans sitja þingmenn. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður með lögum um náttúruvernd og með stjórn hans fara Umhverfisstofnun og Snæfellsbær. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður með sérstökum lögum og í honum er mikil áhersla lögð á valddreifingu. Garðinum er skipt í fjögur rekstrarsvæði, innan þeirra eru svæðisráð og formenn þeirra eru sveitarstjórnarfulltrúar. Þeir skipa einnig meirihluta í stjórn þjóðgarðsins. Almennt er litið til Vatnajökulsþjóðgarðar sem fyrirmyndar hvað varðar stjórnun friðlýstra svæða í dag.

Þjóðgarðar eru ekki endilega mjög sterk vernd. Þeir hafa almennt verið settir á fót vegna merkilegra náttúru- og menningarminja. Markmið þeirra er almennt að tryggja verndun náttúru- og menningarminja, tryggja stýringu, aðgang og stuðla að útivist og miðla fræðslu. Að auki leggja lög um Vatnajökulsþjóðgarð áherslu á að styrkja byggð og atvinnustarfsemi, vernda náttúru og gefa almenningi kost á að kynnast náttúru og sögum.

Í Skotlandi eru byggðafélög oft innan þjóðgarða. Markmið með þjóðgörðum þar er að ýta undir sjálfbæra nýtingu á svæðinu og efla byggðaþróun. Í Cairngorms þjóðgarðinum í Skotlandi hafa mælst mikil hagræn áhrif í nærsamfélaginu. Þjóðgarðurinn hefur sérstakt merki sem fyrirtæki á svæðinu nýta sér í sinni markaðssetningu.

Í Kosta Ríka er svæði sem hefur hvað mestan líffræðilegan fjölbreytileika sem fyrirfinnst á jörðinni. Á áttunda áratugnum átti sér þar stað mikil land- og skógareyðing. Þessi eyðing varð til þess að íbúar drógu úr einni tegund af nýtingu og hófu annars konar nýtingu á svæðinu. Þeir fjölguðu  verndarsvæðum og einblíndu á vistvæna ferðamennsku, náttúruferðamennsku og markaðssetningu á þeim forsendum. Nú er þessi tegund ferðamennsku orðin stærsta atvinnugrein Kosta Ríka.

Það að gera svæði að þjóðgarði eflir sameiginleg gildi svæðisins, lyftir því á ákveðinn stall og gerir það verðmætara í augum samfélagsins. En er ákjósanlegt að svæði laði að sér ferðmenn, eins og þjóðgarðar gera óneitanlega? Þjóðgarðar laða mögulega að sér fleiri gesti en önnur svæði en á sama tíma skapa þeir umgjörð á svæðinu sem gerir það undirbúið undir að taka á móti fólki. Markmið með þjóðgarði er að tryggja aðgang og nýtingu út frá náttúruvernd.

Hvað gerir Breiðafjörðinn verðugan til þess að vera gerður að þjóðgarði? Svæðinu tengist mikil saga með tilheyrandi menningarminjum. Á Breiðafirði hafa hlunnindi verið nýtt á sjálfbæran hátt aftur í aldir. Náttúra svæðisins er falleg og einstök og sérstakt lífríki fjarðarins ásamt jarðfræði er þegar verndað með sérlögum. Svæðið býður upp á einstakt tækifæri til náttúruupplifunar. Ört vaxandi ferðaþjónusta kallar á frekari stýringu innan svæðisins, skipulag og fræðslu. Friðlýsing væri einmitt tæki til þess. Eins og fyrirkomulag verndar er í dag stjórna heimamenn í þjóðgörðum ferðinni á það hefur nefndin lagt ríka áherslu.