Þegar Breiðafjarðarnefnd samþykkti að hefja þá vegferð að kanna hvaða kostir væru til staðar fyrir  framtíð Breiðafjarðar lagði nefndin áherslu á eins víðtæka kynningu og samráð við íbúa, sveitarstjórnir, landeigendur, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila og unnt væri.

Nefndin hóf samráðið með ítarlegri kynningu og fræðslu á þeim kostum sem til staðar eru fyrir framtíð fjarðarins á málþingi í Tjarnarlundi í Dalabyggð í október 2019. Þangað var sérstaklega boðið kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna sjö við fjörðinn en málþingið var þó öllum opið.

Í kjölfar málþingsins var boðað til opinna íbúafunda í sveitarfélögunum við fjörðinn í byrjun árs 2020. Þegar hafa verið haldnir þrír íbúafundir við sunnanverðan fjörðinn. Þar kynnti Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar, nefndina og vinnu hennar; Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands og fulltrúi í nefndinni, kynnti sérstöðu Breiðafjarðar og mögulega kosti fyrir framtíð hans og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, fjallaði um reynslu sveitarfélags af sambúð með þjóðgarði. Á fundunum var þátttakendum gefinn kostur á að spyrja spurninga og viðra hugmyndir sínar, væntingar, vonir, áhyggjur og afstöðu.

Fresta þurfti opnum íbúafundum við norðanverðan fjörðinn vegna samkomutakmarkana en stefnt er að því að halda þá haustið 2020.

Í lok sumars og fram á haust 2020 mun Breiðafjarðarnefnd óska eftir fundum með kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna við fjörðinn. Á þeim fundum verður afstaða þeirra til hugmynda nefndarinnar könnuð.

Að loknum íbúafundum og fundum með sveitarstjórnum mun nefndin taka saman niðurstöður vinnu sinnar. Þær niðurstöður verða senda sveitarstjórnum við fjörðinn til formlegrar umsagnar áður en þær verða kynntar umhverfisráðherra.