Breiðafjarðarnefnd stendur þessa dagana fyrir samráðsfundum með fulltrúum sveitarfélaganna sjö við Breiðafjörð. Nefndin hefur þegar fundað með fulltrúum Vesturbyggðar, Dalabyggðar og Reykhólahrepps.
Tilgangur þessara funda er meðal annars að kynna stuttlega fyrir kjörnum fulltrúum hvar verkefnið er statt, hvaða hugmyndir hafa kviknað og hver næstu skref eru. Megintilgangur fundanna er þó að kynnast afstöðu kjörinna fulltrúa til vinnu nefndarinnar varðandi framtíð Breiðafjarðar. Sú afstaða skiptir miklu máli í áframhaldandi vinnu hennar.
Þegar nefndin hefur fundað með sveitarstjórnum við fjörðinn mun hún taka niðurstöður samráðsvinnunnar síðasta árs saman. Sú samantekt verður send sveitastjórnum til formlegrar umsagnar. Eftir að umsagnir hafa borist verður niðurstöðum nefndarinnar skilað til umhverifsráðherra.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að nefndin tekur engar ákvarðanir um framhaldið en hún leggur sínar tillögur fram til ráðherra, í samræmi við hlutverk nefndarinnar skv. lögum. Nefndin mun í tillögum sínum leggja höfuðáherslu á, sama hvaða leið verður farin, að heimamenn hafi áfram ríka aðkomu að stjórnun svæðisins og þróun framtíðar þess og eigi meirihluta í þeim nefndum og ráðum sem mögulega koma að stýringu þess.
Hvað fundi með íbúum varðar stóð nefndin, í byrjun árs, fyrir opnum íbúafundum við sunnanverðan fjörðinn. Þar gafst íbúum tækifæri á að heyra hvaða kosti nefndin telur mögulega fyrir fjörðinn og nefndinni gafst kostur á að heyra afstöðu íbúa. Nefndin neyddist því miður til þess að fresta fyrirhuguðum fundum í Dalabyggð, í Reykhólahreppi og í Vesturbyggð vegna samkomutakmarkana. Í samráði við sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga er þó stefnt að því að halda slíka fundi á komandi vikum.