Hraunsfjörður er um 3 km langur fjörður sem gengur í suðurátt inn í norðanvert Snæfellsnes. Hraunsfjörður er hluti af verndarsvæði Breiðafjarðar og gilda þar lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar.

Hraunsfjörður var stíflaður á 20. öld en við það tók lífríki hans talsverðum breytingum. Breiðafjarðarnefnd hefur rætt mögulega endurheimt Hraunsfjarðar og kynnti sér svæðið í vettvangsferð sinni árið 2023 þar sem sérfræðingur á sviði ferskvatnsfiska hjá Hafrannsóknastofnun kynnti fjörðinn og lífríki hans fyrir nefndinni, auk þess að veita ráðgjöf um mögulega endurheimt hans.

Breiðafjarðarnefnd telur að endurheimt á náttúrulegu lífríki Hraunsfjarðar væri tiltölulega einföld framkvæmd, sem fæli í sér að fjarlægja stíflu sunnan við brú yfir Mjósund. Þar með myndi sjór og ferskvatn flæða um sundið og seltustyrkur fjarðarins aftur ná náttúrulegu ástandi. Breiðafjarðarnefnd sér fyrir sér að núverandi brú og fyllingar að henni myndu áfram standa og mynda þrengingu við sundið en þó líklega ekki meira en svo að full sjávarföll yrðu tryggð í Hraunsfirði. Ekki hefur farið fram vísindaleg rannsókn á mögulegum breytingum á lífríki sem endurheimt Hraunfjarðar hefði í för með sér.

Breiðafjarðarnefnd kynnti hugmyndir sínar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í sumar 2024 og gaf hann grænt ljós til að vinan verkefnið áfram. Breiðafjarðarnefnd vinnur nú með landeigendum og fagaðilum að verkefninu.

Hægt er að lesa um hugmyndir Breiðafjarðarnefndar í greinargerð hér á heimasíðu nefndarinnar undir flipanum útgáfu.